Back arrow

Nýárstónleikar | Schönbrunn Palace Orchestra

Schönbrunn – Stjórnandi

David Scarr

David Scarr er fæddur í Suður–Afríku og hlaut sína fyrstu tónlistarmenntun í kórastarfi. Hann er með BA í tónlist frá Nelson Mandela Metropole háskólanum í Port Elizabeth auk þess sem hann er með hornleikarapróf á franskt horn ásamt kennsluréttindum á málmblásturshljóðfæri frá Royal School of Music í London og Háskóla Suður–Afríku.

Eftir fimm ára starf í Cape Town þar sem hann stýrði Beau Soleil Orchestral Music Centre tónlistarmiðstöðinni hélt hann áfram námi við Vienna Conservatoire, en hann útskrifaðist þaðan með ágætiseinkunn árið 1994.

David Scarr hefur sinnt starfi tónlistarstjóra á sviðum óperu–, kór–, sinfóníu– og kammertónlistar í Suður–Afríku, Ástralíu, Portúgal, Rúmeníu, Slóvakíu og á Spáni. Scarr hefur tekið þátt í og stýrt fjölda heimsfrumflutninga á bæði óperum og sinfóníum, en þátttaka hans í óperu Suður–Afríska tónskáldsins Roelof Temmingh, „Buchuland“, hlaut einróma lof gagnrýnenda um heim allan.

Hann hefur tekið upp verk fyrir austurríska, slóvakíska og suður–afríska útvarpið, Classic FM og Fine Music Radio. Hann starfaði sem hornleikari um sex ára skeið með Vienna Chamber Orchestra, þar sem hann vann meðal annars með Sir Neville Marriner, Phillipe Entremont, Heinz Holliger og Heinrich Schiff ásamt því að vera mjög eftirsóttur í ýmis störf á eigin vegum.

Á árunum 2002–2007 gegndi David Scarr stöðu prófessors og deildarstjóra við tónlistardeild Rhodes University í Grahamstown í Suður–Afríku. Að því loknu sneri hann til baka til Vínar, þar sem hann býr enn, en seinustu ár hefur hann bæði komið fram og kennt víðsvegar um heiminn.

David Scarr er gestastjórnandi Schönbrunn Palace Orchestra.