Aukatónleikum með Laufeyju hefur verið bætt við föstudaginn 8. mars vegna fjölda áskoranna og gríðarlegrar umframeftirspurnar.
Tónleikarnir 9. og 10. mars seldust upp á skotstundu og það sama má segja um aðra tónleika á Bewitched túrnum. Framundan er tónleikaferðalag um alla Evrópu, Asíu og Bandaríkin sem telur í heildina yfir 60 borgir. Þar eins og hér er yfirleitt um mikla umframeftirspurn að ræða og hefur Laufey ekki við að bæta við aukatónleikum og/eða færa sig í stærri tónleikastaði.
Platan Bewitched kom út í september síðastliðinn og hefur fengið einróma lof gagnrýnenda og tónlistarunnenda um allan heim. Platan hlaut tilnefningu til Grammy verðlauna og Billboard lofaði Laufeyju sem brautryðjanda djasstónlistar. Laufey er orðin mest spilaði Íslendingurinn á Spotify frá upphafi.
Það skal tekið fram að ekki er hægt að bæta við fleiri tónleikum.