Placeholder canvas

Liðinn viðburður

Ólafur Arnalds í Eldborg

Tónlistarmaðurinn og BAFTA-verðlaunahafinn Ólafur Arnalds lýkur viðburðaríku ári með tónleikum í Eldborgarsal Hörpu þann 18. desember en tónleikarnir eru hluti af metnaðarfyllsta tónleikaferðalagi hans til þessa.

Þrjú ár eru síðan Ólafur hélt síðast tónleika á Íslandi en undanfarin misseri hefur hann unnið að hinum ýmsu verkefnum s.s. kvikmynd og plötu undir nafninu Island Songs, tónlist fyrir sjónvarpsþáttaraðirnar Broadchurch og Philip K. Dick’s Electric Dreams auk þess að ferðast um heiminn með raftónlistardúóinu Kiasmos.

Tónleikarnir í Hörpu eru hluti af viðamiklu tónleikaferðalagi Ólafs árið 2018. Fyrstu tónleikarnir verða í Evrópu og Norður Ameríku í maí og júní en á þá er uppselt að mestu, m.a. Í hinu fornfræga tónleikahúsí Royal Albert Hall í London. Næsta haust og vetur teygir tónleikaferðalagið úr sér um allan heim. Með Ólafi á sviði verða strengjakvartett og slagverksleikari en miðpunktur tónleikanna eru tvö sjálfspilandi píanó sem Ólafur hefur unnið að í ríflega tvö ár.

„Ég er að þróa algjörlega nýja sviðssetningu sem byggir á hugbúnaði sem við höfum hannað til að stýra sjálf­spilandi píanóum. Það verða því þrjú píanó á sviðinu, ég spila á eitt og hin fylgja mér með hjálp gervigreindar. Það sem er e.t.v. skemmtilegast við þetta er að vegna þess að píanóin eru sjálfspilandi eru engir tveir tónleikar alveg eins.“

Á tónleikunum í Hörpu koma Ólafur og hljómsveitin öll, mennsk og ómennsk, til með að spila nýtt efni í bland við eldra sem sett verður í nýjan og spennandi búning. Engu verður til sparað í Hörpu og búist við að tónleikarnir verði mikið sjónarspil fyrir augu og eyru. Ekki missa af þessu einstaka tækifæri til að sjá Ólaf Arnalds á heimavelli.

Dagsetning

18. desember 2018

Staður

Harpa – Eldborg

Hlekkir