Sumarklúbbur í Hörpu – Klúbbastemning í Norðurljósum
Hér er á ferðinni ný uppistands- og tónleikaröð á vegum Senu Live. Áherslan er lögð á afslappaða og skemmtilega stemningu fyrir bæði heimamenn og ferðamenn. Sumarklúbburinn er haldinn í Norðurljósasal Hörpu, þar sem verða lítil hringborð og stólar og drykkir seldir inni í salnum.
Kvöldið hefst á bráðfyndnu uppistandi sem fer fram á ensku og eftir stutt hlé taka tónleikar við. Heildarlengd viðburðar er um það bil 2 klst.
Föstudaginn 5. júlí koma fram grínistinn Snjólaug og tónlistartvíeykið GRDN & Magnús Jóhann.
SNJÓLAUG
Snjólaug er einn allra fyndnasti grínisti landsins. Með sinni hárbeittu kímnigáfu gerir hún gys að íslenskri menningu, móðurhlutverkinu, hrjótandi mökum, vellíðunar hippum sem synda í sjónum og alls konar öðrum tilgangslausum umræðuefnum.
GDRN OG MAGNÚS JÓHANN
Söngkonan GDRN og píanóleikarinn Magnús Jóhann hafa komið mikið fram sem tvíeyki frá því að þau gáfu út hljómplötuna Tíu íslensk sönglög, árið 2022. Hún hefur að geyma tíu lög sungin af GDRN við meðleik Magnúsar í útsetningum tvíeykisins og hefur notið mikilla vinsælda. Á efnisskrá plötunnar er fjöldi íslenskra gersema á borð við Rósin, Hvert örstutt spor, Vikivaki og eitt frumsamið lag, Morgunsól. 5. júlí nk. munu þau flytja íslenskar tónlistarperlur í bland við nokkur lög GDRN í Norðurljósasal Hörpu. Gestir tónleikanna geta átt von á ljúfu kvöldi og þeirri hugljúfu stemningu sem er að finna á plötunni.
Guðrún Ýr Eyfjörð, betur þekkt sem GDRN, hefur látið mikið á sér kræla í íslensku tónlistarlífi frá því að hún gaf út sína fyrstu breiðskífu, Hvað ef, árið 2018. Sú hljómplata hlaut fjölda tónlistarverðlauna, tilnefningu til tónlistarverðlauna norðurlanda og mikla athygli. Síðan þá hefur hún sent frá sér fjölda laga í samstarfi við aðra listamenn sem og aðra breiðskífu, GDRN, árið 2020. Seinni breiðskífu sína vann hún m.a í samstarfi við Magnús Jóhann en leiðir þeirra lágu saman í tónlistarskóla FÍH nokkrum árum áður. Þann 22. mars 2024 gaf hún hún út nýja sólóplötu, Frá mér til þín, en þar kveður við ögn poppaðri hljóm en á fyrri plötum en verkið vann hún með Þormóði Eiríkssyni.
Magnús Jóhann Ragnarsson hefur verið mikilvirkur í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár sem píanóleikari, upptökustjóri, tónskáld og ýmislegt fleira fyrir fjölda listamanna. Hann hefur gefið út fjórar sólóplötur, eina stuttskífu og dúóplötu ásamt Skúla Sverrissyni, bassaleikara. Hann var valinn tónlistarflytjandi ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2023 og hefur undanfarið annast tónlistarstjórn í sjónvarpsþáttunum Idol. Bubbi Morthens, Friðrik Dór, Bríet, Ingibjörg Turchi, Stuðmenn og Moses Hightower eru á meðal þess þverfaglega fjölda listafólks sem hann hefur starfað með.